Þegar ég var unglingur las ég bækur um andleg málefni, drauma, líf eftir dauðannvog ógrinni af ljóðabókum. Ég skrifaði ljóð og smásögur sem voru flestar um eymd og þrá, missi og leit.

Þetta skilgreindi mig, ég nærði mig tilfinningalega á dulúð og draumum.

Á sama tíma tókst ég við það að vera unglingur og þá miklu þörf að vera samþykkt. Sjálfstraust mitt var ekki mikið og ég lét lítið fyrir mér fara. Í menntaskóla faldi ég mig á bókasafninu í frímínútum og rétti aldrei upp hönd í tíma. Enn í dag þykir mér gott að vera ein og ósýnileg öðrum.

Í ljósi þess er mjög undarlegt að ég valdi mér þá starfsgrein sem ég hef unnið við síðustu 12 árin og það er að koma fram á sviði og flytja eigin tónlist – ýmist með hljómsveit eða ein með hljóðfæri í hönd.

Mér gekk vel í skóla og átti góða vini. Mér og öðrum þótti það mikill kostur hvað ég var dugleg, en svo uppgötvaði ég hömlur þess að vera stöðugt að, vera með margt í gangi í einu og leyfa sér hvorki að hvílast né mistakast. Það birtist í burnouti.

2011 fór ég í vinnuferð til London og átti þaðan að fara til Hollands í tónleikaferð. Ég gat ekki sofið og drakk mig í svefn. Vaknaði í kvíðakasti og tók flugvél heim í stað þess að fara til Hollands. Ég lagðist upp í rúm og brotnaði gjörsamlega. Ég hélt ég væri að deyja frá dóttur minni og fjölskyldu og skömmin sem fylgdi andlegum veikindum mínum á þeim tíma var rosaleg.

Yfirmaður minn í vinnunni pantaði tíma fyrir mig hjá sálfræðingi sem hann þekkti og upphófst magnað ferðalag að rótum sjálfsins. Ég lærði margt um andlega heilsu mína og þann huglæga sjálfsskaða sem ég hafði tileinkað mér með stöðugum dómum á eigin gjörðir og hugsanir.

Ég komst að því að ég bæri ábyrgð á eigin heilsu, bæði andlegri og líkamlegri og ég ein gæti gefið mér það sem ég þráði, látið drauma rætast og látið sköpunina og frelsið ráða ferðinni. Forsenda þess var sjálfsmildi.

Snemma á síðasta ári sá ég Tinnu vinkona auglýsa einkaseremóníur með hreinu súkkulaði. Ég pantaði tíma án þess að vita mikið meira en það. Seremónían var mögnuð og ég náði á ótrúlega dýpt á tveimur tímum. Ég sá svo skýrt hvað það var sem ég vildi og vildi ekki. Viku síðar sagði ég upp vinnunni og fór að kenna unglingum kvíðastjórnun og sjálfsmildi. Tinnu tengdi ég sterkt við, ásamt súkkulaðinu og vissi að eg þyrfti að kanna lönd þess frekar. Úr varð ANDAGIFT.

ANDAGIFT fyrir mér er tilfinning sem maður finnur í formi núvitundar, sáttar, eftirgjafar og trausts. Það er þetta dásamleg sjálfsmildi sem nærir og gefur án væntinga og dóma. Andagift er sjálfsmildið og sjálfsástin sem við eigum öll skilið.