Þegar þú horfir á sjálfan þig í spegli og sérð handan yfirborðsins, finnur kjarnann og fegurðina sem býr innra með þér. Í þeirri fegurð geislar líkaminn þinn og ófullkomnleikinn verður það sem þú virðir mest.

Þegar þú liggur upp í rúmi og getur ekki sofnað. Þú finnur fyrir líkamanum þínum og sérð skuggamyndir á veggjunum. Myndirnar sýna fegurð og ljótleika en þú óttast ekkert. Jafnvel skuggar þess sem þú hræðist mest skelfa þig ekki. Hjartað slær enn á sama hraða og áður. Þú tekur bara eftir og mænir með aðdáun á galdra innsæis og ímyndunarafls. Þú ert ekki viss hvort þig sé að dreyma eða hvort meðvitund þín sé að dansa. Svo fellur allt í dúnalogn.

Þegar tunglið situr sem fastast á himninum og það eina sem þú getur gert er að mæna á það. Í fyrstu virðist það yfirþyrmandi, eitthvað handan við þig. Eitthvað sem þú getur aldrei snert. En svo sérðu að þú ert tunglið og að karlinn í tunglinu er móðir þín.

Þegar þú finnur fyrir manneskju með líkamanum og veist að hún er með þér, skilur þig og virðir án þess að dæma það að þú hafir ekki verið líkamlega viðstödd eða hringt eins oft og þú ætlaðir. Þegar samviskubitið hættir að vera tíður gestur með ólíkum formum og það eina sem er eftir er sönn ást til þín og alls sem er.