Sem barn og unglingur þjáðist ég af mikilli meðvirkni. Meðvirkni sem lýsti sér allra helst í sjúklegri fullkomnunaráráttu, framkvæmdarkvíða, ótta við að gera mistök og ótta við álit annarra. Þegar ég var 16 ára fór ég og leitaði mér hjálpar í 12. spora samtökum sem satt best að segja breyttu lífi mínu. Þar fékk ég stuðning frá fólki sem hafði glímt við svipaða hluti í lífinu og í kjölfarið fór ég að kynnast sjálfri mér betur, mínum mörkum og mínum draumum. Þar fékk ég til að mynda kjark til þess að láta langþráðan draum um að verða leikkona rætast. En áfram hélt ég að vera “dugleg” og til fyrirmyndar þegar kom að námi & starfi. Ég vann dag og nótt, staldraði sjaldan við og setti háar kröfur á mig að “standa mig vel”. Niðurstaðan varð sú að þegar ég útskrifaðist svo 24 ára gömul var ég komin með blæðandi magasár af kvíða og ári síðar var ég greind með vefjagigt á versta stigi af völdum streitu og myglusvepps. Ég var greind óvinnufær af lækni og komin í burn out. Mér þótti ekki kúl að vera 25 ára, óvinnufær nýútskrifuð leikkona og fann sterkt fyrir pressunni að skara fram úr og stefna á “success”. En sem betur fer greip lífið inn í að þessu sinni og gaf mér skýr skilaboð.
Ég var beðin um að hægja mér, gera verulegar breytingar í mínu daglega lífi, leita mér stuðnings, minnka streitu og slaka á. 

Við tók heilt ár af endurhæfingu. Ég leitaði mér hjálpar hjá sálfræðingum, heilurum og Stígamótum. Ég gerði allt sem í mínu valdi stóð til þess að ná aftur heilsu. Ég fékk ótrúlegan stuðning sem veitti með byr undir báða vængi í efla sjálfsvirðinguna mína og styrk. Þetta ár var líklega mikilvægasta ár lífs míns því ég lærði að andleg heilsa mín væri jafnvæg líkamlegri heilsu og því mikilvægt að hlúa að hvoru tveggja á hverjum degi. Ég fór að stunda jóga, hugleiðslu og ferðaðist um framandi lönd til þess að víkka sjóndeildarhringinn minn. Allt þetta færði mig nær sjálfri mér og því sem ég vildi gera. Ég lærði smátt og smátt að það má gera mistök, það má leita sér hjálpar og það má gefa sér rými til þess að heila gömul sár. Ég lærði að vera hugrökk, standa mér sjálfri mér og elska sjálfa mig eins og ég er, ófullkomna og allskonar. 

Það má því segja að ANDAGIFT sé einhverskonar uppspretta þessa ferðalags í átt í að meiri sjálfsást. Ég hef lært að kúlið mitt gagnast mér takmarkað og lífið færir mér skemmtilegri verkefni þegar ég er sönn sjálfri mér. Ég hef aldrei upplifað jafn áreynslulaust og ævintýralegt sköpunarferli eins og þessi fæðing ANDAGIFTAR hefur verið. Ég trúi því að ástæðan sé sú að eftir alla þessa vinnu óttast ég ekki lengur að mistakast, heldur treysti ég ferðalaginu og því að ég sé orðin nógu sterk til þess að takast á við allt það sem bíður mín. Takk líf fyrir að færa mér ANDAGIFT og takk fyrir töfrana!