ANDAGIFT

Andagift stuðlar að samkennd fremur en sundrung.

Samhug fremur en samkeppni.

Andagift veitir innblástur og innsýn inn í heim hjartans.

Andagift leggur áherslu að það má vera allskonar og líða allskonar.

Andagift leitast við að efla sjálfsást og sjálfsmildi í samfélaginu, svo saman megum við breyta gömlum gildum og skapa fallegra landslag fyrir alla.

ANDAGIFT HREYFING

Andagift er hreyfing sjálfsástar og sjálfsmildis. Við lifum merkilega tíma þessa stundina, tíma þar sem sannleikurinn fær loksins að líta dagsins ljós, heiðarleikinn og hugrekkið er í hávegum haft og sárin eru berskjölduð. Tíma þar sem krafist er af okkur að líta inn á við og leyfa okkur að lifa meira frá hjartanu. Herferðir á borð við #metoo, #égerekkitabú, #höfumhátt hafa tröllriðið samfélagsmiðlum og umræðan um andlegt heilbrigði líklega aldrei verið meiri. Það er allsherjar hreinsunarstarfssemi í gangi og mikil þörf á aðhlynningu og heilun. Kvíði, depurð og streita eru vaxandi mein í samfélaginu, bæði hjá okkur fullorða fólkinu og ekki síst börnum okkar. Andagift finnur því mikilvægi þess að mæta kallinu og leggja lið. Skapa rými til samveru og slökunar svo saman megum við græða okkar sár. Við viljum mæta þessarri þörf opnum örmum, halda námskeið, opna umræðuna og bjóða athvarf þar sem má vera allskonar. Andagift er hreyfing þar sem öllum er boðið að taka þátt að í gefa huganum hvíld og tengjast eigin hjarta.

ANDAGIFT SÚKKULAÐISETUR

Andagift Súkkulaðisetur er griðarstaður sem býður upp á fjölbreytta tíma af andlegri iðkun, þar má nefna tónheilun, djúpslökun, hugleiðslu, jóga og súkkulaðiseremóníur. Einnig bjóðum við upp á einkatíma, námskeið og einstaka viðburði. Í Andagift er lítil verslun sem sérhæfir sig í lífrænum gæða vörum, kristölum og kósýheitum.

N

TÓNHEILUN

Tónheilun er einföld og áhrifarík leið til þess að slaka á líkama og huga. Líkaminn okkar er um 60% vatn ~ tónheilun hreyfir við vatni líkamans og losar þannig um spennu og staðnaða orku. Einnig vinna hreinir tónar á miðtaugakerfi okkar sem gefur djúpslakandi áhrif á taugakerfið. Þannig hjálpar tónheilun okkar að vinna bug á streitu & kvíða.
N

HUGLEIÐSLA

Hugleiðsla eykur athyglisgáfu, einbeitingu og hæfileikann til að vinna undir álagi án streitu. Hún hjálpar okkur að draga úr kvíða og áhyggjum og auðveldar okkur að takast á við bæði líkamlegan og andlegan sársauka. Hugleiðsla dregur einnig úr misnotkun áfengis og fíkniefna, eykur viðbraðgsflýti og vinnur á síþreytu. Hugleiðsla eykur sköpunargleði.
N

KUNDALINI JÓGA

Kundalini Jóga er kennd eftir forskrift Yogi Bhajan og miðar að því að hreyfa við lífsorkunni okkar og losa um stíflur í orkustöðvum líkamans. Til þess eru notaðar ýmis konar líkamsstöður, hugleiðslur, öndunaræfingar og möntrusöngur. Kundalini jóga er ótrúlega öflug leið til þess að tengja inn á við, finna fyrir líkamanum sínum, mætti /kröftum og sanna sjálfi.
N

DEKURSTUND FYRIR HÓPINN ÞINN:

Dekurstund fyrir þig og vini þína með ilmandi súkkulaðibolla, tónheilun, djúpslökun og lestur á spilum fyrir afmælisbarnið/gæsina/stegginn ~ SÉRSTAKT TILBOÐ Á TAUPOKUM & SÚKKULAÐISKRÚBBI ANDAGIFTAR ~
N

OPIÐ SETUR

Andagift súkkulaðisetur býður upp á opið setur á mánudögum og föstudögum milli kl. 9 og 11. Þá er hægt að koma og gæða sér á ilmandi súkkulaðibolla og njóta vistar – hugleiðslu – slökunar í súkkulaðisetrinu. Einnig er hægt að kaupa súkkulaðiplötur á þessum tíma. 
N

EINKATÍMAR

Einka súkkulaðiseremónía með Tinnu þar sem boðið er upp á ilmandi súkkulaðibolla, leidda hugleiðslu, tónheilun & djúpslökun. Markmið tímans er að tengjast inn á við með sjálfsmildi að leiðarljósi. Við leyfum kröftum súkkulaðisins að leiða okkur í ferðalag þar sem við hreinsum burt það sem við þurfum ekki lengur á að halda, endurnærum líkama & sál og tengjumst því sem hjartað kallar á. Einkaseremónía með Láru í kvíðastjórnun og sjálfsstyrkingu með hjálp Kundalini Jóga þar sem fundnar verða leiðir til þess að minnka streitu og kvíða með hugleiðslu- öndunar- og líkamsæfingum. Boðið er upp á vermandi súkkulaðibolla og hjartans spjall.

N

SÚKKULAÐISEREMÓNÍA

Við í Andagift bjóðum upp á fjölbreyttar seremóníur.

Súkkulaðimöntrukvöld: Áhersla er lögð á að tengjast inn á við og finna einingu í gegnum
möntrusöng og hugleiðslu.
Nýtt tungl seremónía: Áhersla lögð á að tengjast eigin markmiðum, löngunum og draumum.
Bjóðum inn krafta tunglsins til þess að gefa okkur byr undir báða vængi svo við megum láta
drauma okkar rætast.
Kakódans: Súkkulaði. Dans. Flæðandi tónlist. Gerist ekki betra! Þar tengjumst við eigin
líkama, sleppum tökunum og dönsum eins og enginn sé að horfa.

UM OKKUR

LÁRA RÚNARSDÓTTIR

LÁRA RÚNARSDÓTTIR

Lára Rúnarsdóttir er tónlistarkona og kundalini jógakennari. Hún hefur gefið út fimm plötur með eigin tónlist en síðasta plata hennar Þel þótti bæði draumkennd og heilandi. Lára hefur komið fram á tónleikum víða um heim og tók m.a. þátt í ævintýrinu á Húna ásamt Mugison, Jónasi Sig, Ómari Guðjóns, Arnari Gísla og Guðna Finns þar sem þau sigldu hringinn í kringum landið og spiluðu tónleika til styrktar Björgunarsveitum landsins. Lára lauk Kundalini kennaraprófi árið 2013 og tengdi sérstaklega við möntrur og mátt þess til að lægja öldur hugans og koma á jafnvægi milli hugar og hjarta. Mantra, sem þýðir frelsi hugans, getur hljómað hið innra, til hlustunar eða verið sungin út.

lara@andagift.is

TINNA SVERRISSDÓTTIR

TINNA SVERRISSDÓTTIR

Tinna Sverrisdóttir er útskrifuð leikkona úr Listaháskóla Íslands og starfar einnig sem tónlistarkona. Hún er einn stofnenda Reykjavíkurdætra og einnig meðlimur í hljómsveitinni Kronika. Tinna stundaði nám í Guatemala árið 2017 að nafni “Yoga of sound and chocolate” þar sem hún lærði um mátt súkkulaði plöntunnar og töfra tónheilunar. Í náminu var lögð áhersla á raddþjálfun og tengingu hjartastöðvar við raddstöðina í gegnum söng og möntrur. Í dag býður hún upp á einkatíma með súkkulaði, leiddri hugleiðslu, tónheilun, raddþjálfun út frá orkustöðvunum, sjálfsnuddi og ferðalagi hjartans.

tinna@andagift.is

SAGAN OKKAR

TINNA SVERRISDÓTTIR

Sem barn og unglingur þjáðist ég af mikilli meðvirkni. Meðvirkni sem lýsti sér allra helst í sjúklegri fullkomnunaráráttu, framkvæmdarkvíða, ótta við að gera mistök og ótta við álit annarra. Þegar ég var 16 ára fór ég og leitaði mér hjálpar í 12. spora samtökum sem satt best að segja breyttu lífi mínu. Þar fékk ég stuðning frá fólki sem hafði glímt við svipaða hluti í lífinu og í kjölfarið fór ég að kynnast sjálfri mér betur, mínum mörkum og mínum draumum. Þar fékk ég til að mynda kjark til þess að láta langþráðan draum um að verða leikkona rætast. En áfram hélt ég að vera “dugleg” og til fyrirmyndar þegar kom að námi & starfi. Ég vann dag og nótt, staldraði sjaldan við og setti háar kröfur á mig að “standa mig vel”. Niðurstaðan varð sú að þegar ég útskrifaðist svo 24 ára gömul var ég komin með blæðandi magasár af kvíða og ári síðar var ég greind með vefjagigt á versta stigi af völdum streitu og myglusvepps. Ég var greind óvinnufær af lækni og komin í burn out. Mér þótti ekki kúl að vera 25 ára, óvinnufær nýútskrifuð leikkona og fann sterkt fyrir pressunni að skara fram úr og stefna á “success”. En sem betur fer greip lífið inn í að þessu sinni og gaf mér skýr skilaboð.
Ég var beðin um að hægja mér, gera verulegar breytingar í mínu daglega lífi, leita mér stuðnings, minnka streitu og slaka á. 

Við tók heilt ár af endurhæfingu. Ég leitaði mér hjálpar hjá sálfræðingum, heilurum og Stígamótum. Ég gerði allt sem í mínu valdi stóð til þess að ná aftur heilsu. Ég fékk ótrúlegan stuðning sem veitti með byr undir báða vængi í efla sjálfsvirðinguna mína og styrk. Þetta ár var líklega mikilvægasta ár lífs míns því ég lærði að andleg heilsa mín væri jafnvæg líkamlegri heilsu og því mikilvægt að hlúa að hvoru tveggja á hverjum degi. Ég fór að stunda jóga, hugleiðslu og ferðaðist um framandi lönd til þess að víkka sjóndeildarhringinn minn. Allt þetta færði mig nær sjálfri mér og því sem ég vildi gera. Ég lærði smátt og smátt að það má gera mistök, það má leita sér hjálpar og það má gefa sér rými til þess að heila gömul sár. Ég lærði að vera hugrökk, standa mér sjálfri mér og elska sjálfa mig eins og ég er, ófullkomna og allskonar. 

Það má því segja að ANDAGIFT sé einhverskonar uppspretta þessa ferðalags í átt í að meiri sjálfsást. Ég hef lært að kúlið mitt gagnast mér takmarkað og lífið færir mér skemmtilegri verkefni þegar ég er sönn sjálfri mér. Ég hef aldrei upplifað jafn áreynslulaust og ævintýralegt sköpunarferli eins og þessi fæðing ANDAGIFTAR hefur verið. Ég trúi því að ástæðan sé sú að eftir alla þessa vinnu óttast ég ekki lengur að mistakast, heldur treysti ég ferðalaginu og því að ég sé orðin nógu sterk til þess að takast á við allt það sem bíður mín. Takk líf fyrir að færa mér ANDAGIFT og takk fyrir töfrana!

LÁRA RÚNARSDÓTTIR

Þegar ég var unglingur las ég bækur um andleg málefni, drauma, líf eftir dauðannvog ógrinni af ljóðabókum. Ég skrifaði ljóð og smásögur sem voru flestar um eymd og þrá, missi og leit.

Þetta skilgreindi mig, ég nærði mig tilfinningalega á dulúð og draumum.

Á sama tíma tókst ég við það að vera unglingur og þá miklu þörf að vera samþykkt. Sjálfstraust mitt var ekki mikið og ég lét lítið fyrir mér fara. Í menntaskóla faldi ég mig á bókasafninu í frímínútum og rétti aldrei upp hönd í tíma. Enn í dag þykir mér gott að vera ein og ósýnileg öðrum.

Í ljósi þess er mjög undarlegt að ég valdi mér þá starfsgrein sem ég hef unnið við síðustu 12 árin og það er að koma fram á sviði og flytja eigin tónlist – ýmist með hljómsveit eða ein með hljóðfæri í hönd.

Mér gekk vel í skóla og átti góða vini. Mér og öðrum þótti það mikill kostur hvað ég var dugleg, en svo uppgötvaði ég hömlur þess að vera stöðugt að, vera með margt í gangi í einu og leyfa sér hvorki að hvílast né mistakast. Það birtist í burnouti.

2011 fór ég í vinnuferð til London og átti þaðan að fara til Hollands í tónleikaferð. Ég gat ekki sofið og drakk mig í svefn. Vaknaði í kvíðakasti og tók flugvél heim í stað þess að fara til Hollands. Ég lagðist upp í rúm og brotnaði gjörsamlega. Ég hélt ég væri að deyja frá dóttur minni og fjölskyldu og skömmin sem fylgdi andlegum veikindum mínum á þeim tíma var rosaleg.

Yfirmaður minn í vinnunni pantaði tíma fyrir mig hjá sálfræðingi sem hann þekkti og upphófst magnað ferðalag að rótum sjálfsins. Ég lærði margt um andlega heilsu mína og þann huglæga sjálfsskaða sem ég hafði tileinkað mér með stöðugum dómum á eigin gjörðir og hugsanir.

Ég komst að því að ég bæri ábyrgð á eigin heilsu, bæði andlegri og líkamlegri og ég ein gæti gefið mér það sem ég þráði, látið drauma rætast og látið sköpunina og frelsið ráða ferðinni. Forsenda þess var sjálfsmildi.

Snemma á síðasta ári sá ég Tinnu vinkona auglýsa einkaseremóníur með hreinu súkkulaði. Ég pantaði tíma án þess að vita mikið meira en það. Seremónían var mögnuð og ég náði á ótrúlega dýpt á tveimur tímum. Ég sá svo skýrt hvað það var sem ég vildi og vildi ekki. Viku síðar sagði ég upp vinnunni og fór að kenna unglingum kvíðastjórnun og sjálfsmildi. Tinnu tengdi ég sterkt við, ásamt súkkulaðinu og vissi að eg þyrfti að kanna lönd þess frekar. Úr varð ANDAGIFT.

ANDAGIFT fyrir mér er tilfinning sem maður finnur í formi núvitundar, sáttar, eftirgjafar og trausts. Það er þetta dásamleg sjálfsmildi sem nærir og gefur án væntinga og dóma. Andagift er sjálfsmildið og sjálfsástin sem við eigum öll skilið.

andagift@andagift.is