Hæ ég heiti Tinna. Stundum kölluð Tilfinna vegna þess hve tilfinningarík ég er. Ég græt mikið og ég græt oft. Ég græt af sorg, gleði, tilhlökkun, samkennd og iðulega græt ég yfir stöðu heimsins og tilvist minni innan þessarar margslungnu veraldar. Í mörg ár skammaðist ég mín fyrir það. Skammaðist mín fyrir tárin mín og tilfinningar. Ég var talin vera viðkvæm, dramatísk, hörundsár og þar fram eftir götunum. Í dag er hins vegar viðhorfið annað og ber ég þetta nafn með rentu, stolt af því að eiga allar þessar tilfinningar, vera í tengslum við þær og vera óhrædd við að deila þeim með öðrum. Ég trúi því af öllu hjarta að með því að deila okkar eigin tilfinningum, sögum og upplifunum opnum við fyrir meiri samkennd, ást & skilning í samfélaginu og heiminum öllum. Með því að gefa heiðarleika, bjóðum við upp á heiðarleika. Með því að gefa ást, fáum við ást. Því þrátt fyrir einstaklingshyggju, egó baráttur og efahyggju að þá, þegar öllu er á botninn hvolft leitumst við öll eftir því sama. Við viljum öll elska og vera elskuð. Það er nú bara svo einfalt.

Tilgangur minn með þessum skrifum er einfaldlega að deila sögu minni í einlægni og heiðarleika með von um að einhverjir tengi og fái jafnvel kjark til þess að horfast í augu við sína eigin sögu svo hún megi inspírera enn fleiri. Ég vil tala um komplexana, óttann og efann. Tala um húmorinn, hamingjuna og hjartansmálin. Ég vil tala um það sem allir skilja og það sem enginn skilur.
Svo hér er sagan mín. Vitanlega stikla ég á stóru því þetta er pistill en ekki ævisaga. En nú býð ég þér með í ferðalag 25 ár aftur í tímann. Árið er 1993.

Ég er 5 ára. Ég og pabbi minn ætlum að halda stjörnukvöld. Það er uppáhaldið mitt. Markmiðið er finna sem flest gervitungl. Pabbi segir líka að ef ég sjái stjörnuhrap þá megi ég óska mér. Ég hef prófað það og það virkar. Við keyrum út fyrir bæinn, pabbi setur teppi á þakið á bílnum og svo leggjumst við hlið við hlið og störum út í óendanlegt myrkrið. Það er pínu kalt en það er partur af stemningunni. Það heyrist ekki neitt nema niður í einstaka bílum langt langt í burtu. Ég horfi lengi og horfi langt og velti því fyrir mér hversu langt ég sé eiginlega að horfa. “Pabbi er ég að horfa endalaust núna?” “Pabbi ef heimurinn endar, hvað er þá á bakvið endinn?” “Pabbi hvenær ætlum við að heimsækja tunglið saman?” “Pabbi… heldurðu að þú verðir nokkuð dáinn þegar við getum loksins farið til tunglsins?” Pabbi veit allt, hann er sko fullorðinn. En þegar kemur að þessu að þá finnst mér hann samt ekki vita alveg nógu mikið. Hann segir oft orðin “kannski”, “hver veit” og “jafnvel”. Eftir miklar vangaveltur og pælingar milli okkar feðgina líður mér eins og hausinn minn sé að springa og tárin byrja að brjótast út um augun mín. Ég er ekki að gráta út af því að mér líður illa, ég er að gráta vegna þess að ég skil ekki neitt og veit ekki neitt. Pabba finnst það allt í lagi og leyfir mér að gráta yfir öllum heimsins spurningum. Svo liggjum við áfram í þögn og með tárin trítlandi niður um bollukinnarnar hugsa ég með mér að einn daginn fari ég til tunglsins og þá geti ég sko svarað öllum spurningunum alveg sjálf.

Ég er 7 ára nýbúin að læra að skrifa, ég sit í herberginu mínu að skrifa ljóð í dagbókina mína. Ljóðið fjallar um það hvernig ég ætla að bjarga öllum fátæku börnunum í Afríku. Þetta er einskonar aðgerðaráætlun í formi ljóðs. Textinn er hádramtískur og ég græt. Skammast mín fyrir að eiga svona mikið dót og skammast mín fyrir að hafa það gott á meðan önnur börn eiga ekki neitt. Ég trúi í alvörunni að ég geti bjargað þeim, að einn daginn mæti ég á svæðið og kippi þessu öllu saman í lag. Já við getum sagt að ég hafi verið haldin mikilmennskubrjálæði sem barn en í dag lít ég til baka og sé litla stelpu sem mátti ekkert aumt sjá og í vanmætti sínum vildi breyta heiminum. Við getum stimplað það sem krúttlegt.

Ég er 10 ára, æfi fimleika í Gerplu og er haldin fitukomplexum. Mér finnst gaman í fimleikum en mér finnst leiðinlegt að keppa. Bæði vegna þess að mér finnst leiðinlegt að það séu ekki allir saman í liði, mér finnst leiðinlegt að láta dæma mig, leiðinlegt að tapa og svo má maður ekki einu sinni vera í nærbuxum, sem þýðir að nýþröngi fimleikabolurinn festist alltaf uppi í rassinum á manni. Stelpurnar í hópnum mínum er allar eldri en ég, þær eru skvísur og kunna að gera araba flikk. Ég upplifi mig sem litla ljóta andarungann í hópnum. Ég er lítil, búttuð og kemst ekki í splitt. Í lok annar veitir kennarinn hverri og einni viðurkenningaskjal fyrir frammistöðu vetrarins. Foreldarnir eru viðstaddir og við stöndum allar í stafrófsröð sem þýðir að ég er síðust. Kennarinn les hátt og skýrt upp viðurkenningarnar. Anna: “Ungfrú Afturábakaheljar”, Gréta: “Ungfrú Tvíslá”, Sóley: “Ungfrú Flikk”, Tanja: “Ungfrú Splitt”, Tinna Sverrisdóttir: “Ungfrú KURTEIS!” Þar með var fimleikaferli mínum lokið og ég skipti yfir í skátana. Kurteis og kyrrlát kemst ég í gegnum miðstig grunnskólans með 9,5 í meðalleinkunn. Húrra fyrir mér.

Ég er 13 ára, komin í unglingadeild og staðalbúnaðurinn í veskinu er ljósbleikt gloss með karamellulykt og tyggjó. Án staðalbúnaðarins gæti ég dáið dramatískum egó dauða innan grunnskóla samfélagsins og enginn með fullu viti vill hætta á það. Með þetta tvennt að vopni kem mér inn í alla helstu vinahópa og nefndir skólans. Ég á fullan fataskáp af ýmisskonar búningum og grímum sem koma sér svo sannarlega vel að gagni, því með hverjum hópi þjóna ég ólíkum hlutverkum. Í hópi eitt er ég “Flipparinn”, í hópi tvö “Skvísan”, í þeim þriðja “Nördið”, þeim fjórða “Sálfræðingurinn” og svo koll af kolli. Ég hoppa á milli karaktera eins og þaulreynt kamelljón að bjarga eigin lífi. Dauðhrædd um að einhver komist að því að raunverulega hef ég ekki hugmynd um hver ég er. Ég hegða mér vel, geng í Stúlknakór Reykjavíkur og vinn hörðum höndum af því að halda uppi þeirri fullkomnu ímynd sem forðar mér frá falli. Ég er alltaf brosandi, til í spjall og besta vinkona allra kennaranna. Á sama tíma inni í herberginu mínu verða ljóðin enn dramatískari, tárin þyngri og með tilkomu internetsins eyði ég ófáum stundum í að “gúggla” sveltandi börn. (Eins og allir vita er mjög dramtískt að vera táningur). En í dag skil ég að þar sem ég sat fyrir framan fyrstu macintosh tölvu fjölskyldunnar (sem var líklega jafn þung og ég á þessum tíma) var ég í örvæntingu minni að finna staðfestingu á því að mér ætti ekki að líða illa vegna þess að einhver þarna úti í heimi hefði það svo miklu verra en ég. Ég hefði í raun og veru ekki yfir neinu að kvarta. Svo ég þurrka tárin, pakka ljóðunum niður í skúffu og fer út að mastera sálfræði hæfni mína með ólíkum vinkonum sem ávallt gátu leitað til mín. Með ofurhetju skykkju á bakinu flýg ég mína leið í gegnum grunnskólann.

Ég er 16 ára. Nýbyrjuð í Versló. Í snípstuttu gallapilsi og toppi úr Sautján þramma ég Marmarann á brakandi nýjum kúrekastígvélum úr Spútnik. Ókunnug andlit allstaðar, fólk sem ég tel í guðatölu frá Versló söngleikjum fyrri ára situr á næsta borði og spennan yfir nýrri sendingu af “busakjöti” er áþreyfanleg. Ég eignast fljótt góða vini, kemst inn í Nemó og þar af leiðandi fæ aðgöngumiða inn í “elídu“ skólans og tróni á toppi tilverunnar. Ég nýt mín vel og dempi mér á kaf í félagslífið, eyði öllum stundum á fundum og æfingum og því er mikilvægt að koma sér í mjúkinn hjá kennurunum svo ég fái slaka á slæma mætingu. Ungfrú Kurteis rúllar því upp með breiðu brosi og dass af gríni. Það er bara eitt bobb í bátnum, ég er nýbúin að komast að því að pabbi minn er alkahólisti og nú situr hann í fangelsi fyrir einhverjar óskilgeindar sektir. Vinir mínir spyrja mig stundum hvar pabbi minn sé eiginlega en þá á ég svar á reiðum höndum og segi að hann sé að vinna á bóndabæ út í sveit. Hann sé nú svo mikill dýravinur að það sé bara gott fyrir hann að eyða tíma burtu frá borginni. Inn í mér er ég skíthrædd, hrædd um að hulunni verði svipt af lygum mínum. Skíthrædd um að glansmyndin brotni. Það rifjast upp fyrir mér á þessum tíma að nokkrum árum áður var mér sagt að pabbi minn væri haldinn öðrum sjúkdómum, annars vegar geðklofa og hins vegar geðhvarfasýki. Ég skildi aldrei fullkomnlega hvað það þýddi svosem, vissi bara að stundum var sól & blíða og þá gerðum við allskonar skemmtilegt saman en stundum voru þrumur & eldingar inni í honum og þá var ég hrædd um að hann myndi deyja. Mér fannst ég bera ábyrgð á þessu öllu saman því þegar ég var hjá honum virtist birta til en um leið og pabbahelgum var lokið dró ský fyrir sólu. Ég ríghélt í þá staðfestu að standa mig bara vel í skólanum og vera glöð í lífinu því þá yrði allt allt í lagi og enginn myndi deyja.

Ég þarf samt stundum að fara heim úr skólanum því mér er svo flökurt, stundum get ég ekki sofnað útaf mér finnst eins og hausinn á mér sé þeytivinda og ég vakna oft með sting í maganum. Ég hrædd um að passa ekki inn og að einhverjum líki illa við mig. Það tekur meira og meira á að leika öll þessi hlutverk og ég passa ekki lengur í alla búningana mína. Það er komin sprunga á flestar grímurnar og farið að glitta í litlu hræddu Tinnu sem vill bara heitast af öllu bjarga pabba sínum og heiminum um leið.

Á þessum tíma skil ég ekkert hvað er að mér. Ég sökkvi mér bara enn frekar í félagslífið og strákastand svo ég hafi nú örugglega ekki neinn tíma til þess að vera ein með mínu snarbrjálaða höfði. Keyri mig út á daginn svo ég eigi auðveldara með að rotast á koddanum á kvöldin. Ég hef minni tíma til að skrifa dramatísk ljóð en þess í stað fæ ég reglulega útrás fyrir tárin mín yfir raunveruleikaþáttum. Græt í koddann minn yfir því að uppáhalds Ameríska ídolið mitt hafi ekki komist áfram í samnefndum þáttum. Mamma spyr oft hvað sé að angra mig og ég svara alltaf eins  “Ég veit það ekki, mér líður bara einhvernveginn!” Þegar ég lít til baka að þá var ég að segja satt, ég vissi það í alvörunni ekki. Ég vissi ekki hvað tilfinningarnar mínar hétu, ég vissi ekki að ég væri sorgmædd yfir veikindum pabba eða ég væri hrædd við álit strákanna í skólanum. Ég var bara unglingur og ég ein í heiminum. Eina menneskjan sem skildi mig var Kelly Clarkson og við eyddum ófáum stundunum saman inni í herbergi þar sem “Because of you” var blastað á repeat, en að sjálfsögðu í headphonum samt sem áður. Ungfrú Kurteis vill nú síst af öllu ónáða fjölskyldumeðlimi með hávaða sjáðu til!

Það tekur á að ætla að vera fullkomin og það er líka fullkomin leið til þess að valda sjálfri sér eilífum vonbrigðum. Ég þróa með mér skömm, átröskun og leita samþykkis í stráka. “Ef hann vill sofa hjá mér hlýtur það að þýða ég sé einhvers virði.” Þetta er viðhorfið sem ég tileinka mér á svipuðum tíma og ég uppgötva töfra áfengis. Eftir að hafa stundað “Vídjókvöld með stelpunum” hverja helgi í heilt ár kemst móðir mín að því að litla prúða barnið sitt væri byrjað að drekka. Vitanlega mikið áfall fyrir móður mína og ég er sett í áfengisbann. Á sama tíma fæ ég símhringingu frá mjög kærri frænku minni sem hafði ávallt verið mín stoð og stytta í gegnum lífið. Hún segir mér frá því að til séu fundir fyrir unglinga eins og mig. Fundir fyrir börn alkahólista. Hún býður mér að prófa með þeim skilaboðum að hún hafi áhyggjur af mér. Á þessum tíma var hnúturinn í maganum á mér orðinn svo stór að ég var tilbúin að gera hvað sem er til að líða betur. Svo ég sló til.

Árið er 2004 og ég er 16 ára. Ég sit í hring með krökkum á mínum aldri og tveimur fullorðnum einstaklingum. Hver og einn kynnir sig með nafni og segir örlítið frá sjálfum sér. Ég sit frosin af hræðslu og þegar röðin kemur að mér næ ég að hiksta uppúr mér fyrsta atkvæði nafnsins míns áður en ég gjörsamlega brotna. Ég man ekki mikið eftir því hvað var rætt á þessum tiltekna fundi, ég man bara eftir því að hafa hugsað “Hvernig í ósköpunum geta þau öll verið að segja MÍNA sögu”. Ég komst s.s. að því að ég væri ekki ein í heiminum og það væru til aðrir krakkar sem liðu nákvæmlega eins og mér. Þegar ég labbaði út af fundinum leið mér eins og ég hefði verið blind í 16 ár en væri nú búin að fá sjónina. Það var bæði ógvænlegt og frelsandi.

Ég er 20 ára. Búin að mæta á samskonar fundi í 4 ár og farin að skilja að alkahólismi sé sjúkdómur og að ég geti með engu móti bjargað pabba mínum og hvað þá börnunum í Afríku. Ég skrifa enn dramatísk ljóð en nú bara nokkrum sinnum á ári þegar heimshryggðin heltekur mig, það gerist iðulega eftir að ég horfi á mjög átakanlegar bíómyndir sem varpa ljósi á hræðilegt ástand heimsins. Ég er að sækja um í Listaháskóla Íslands. Komin með nægilega mikið hugrekki til þess að láta á það reyna en samt skíthrædd við að fá höfnun. Á þessum tíma tileinka ég mér mína fyrstu möntru: “I’d rather look back and think: Shit I can’t believe I did it instead of looking back and thinking: Damn I wish I tried”. Með þetta í huga skrái ég mig í prufur og tveimur mánuðum síðar fæ ég sent bréf sem á stendur: “Til hamingju við bjóðum þér inngöngu í Leiklistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2008!” Ég stekk upp úr sætinu mínu, rýk út úr miðjum efnafræðitíma og mæti hágrátandi fram á Marmara þar sem Siggi vinur minn stendur sigri hrósandi, umvafinn vinum okkar eftir að hafa fengið sömu fréttir. Ég hleyp inn í hópinn og mæti faðminum hans sem knúsar mig þéttingsfast og segir “Þetta er allt í lagi, þú kemst inn næst”, ég brýt mig úr faðmlaginu og öskra “Nei ég er að gráta af gleði, ÉG KOMST INN”. Svo er hoppað í hringi, skrópað í næsta tíma og fagnað með Dominos slæsu á Stjörnutorgi. Svo þarna er það staðfest: Draumar geta ræst!

Ég er 24 ára. Stend í útskriftakjólnum mínum á sviði Borgarleikhússins þar sem ég tek við útskriftar plagginu mínu og get ekki annað en hugsað til síðasta skiptis sem ég tek við álíka plaggi 14 árum áður. Nú er “Ungrfú Kurteis” orðin útskrifuð leikkona dömur mínar og herrar. Kannski að búningarnir og grímurnar hafi þjónað sínu hlutverki eftir allt saman. En síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og mér finnst ég vera reynslunni ríkari eftir fjögur ár af mestu sjálfsskoðun lífs míns, þar sem ég flutti lögheimilið mitt frá foreldrahúsum inn í eigið rassgat og “feisaði” eigin skít á hverjum degi. Þær 9 manneskjur sem voru samferða mér í gegnum þetta ferðalag hafa líklega séð meira af mér en margur annar maðurinn. Ég lít út í salinn þar sem fjölskylda mín situr, ég er stolt, meyr og full tilhlökkunar fyrir komandi tímum. Svo halda ég og mínir á Klambratún þar sem ég hef slegið upp partýtjaldi og betlað ókeypis pylsur frá bæjarins bestu, brauði frá Myllunnni, snakki frá Stjörnusnakki og landa af Snorra bekkjarbróður í bollu. Þetta býð ég svo upp á eins og sönnum fátækum listamanni er lagið og á gúmmitúttum, í síðkjól, með blómakrans á höfðinu finnst mér ég hafa sigrað heiminn. Euphoria er sett á repeat og svo dönsum við vinirnir ódauðleg inn í hábjarta nóttina.

Ég er 25 ára. Morgunblaðið tilkynnir alheiminum að ég sé orðin rappari og það kemur engum meira í opna skjöldu en mér sjálfri. Reykjavíkurdætur eru fæddar og tilbúnar að breyta heiminum. Ég tek því hlutverki að sjálfsögðu fagnandi og fæ tækifæri á að breyta dramatísku ljóðunum mínum í rapptexta. Þetta er í fyrsta skipti í sögu minni sem nokkur maður fær að hlýða á ljóðmæli mín annar en Tumi hundurinn minn og einstaka fjölskyldumeðlimir. Ég læri að stelpur mega vera stelpum bestar. Ég læri að vera með stæla, taka mikið pláss og segja það mér finnst. Ég legg ekki enn í pólitískar umræður en þess í stað sem ég lög um kynferðisofbeldi, píkur og pungavöld. Ég girði niðrum mig í beinni útsendingu og set þjóðfélagið á hliðina. Ég er komin með gat í nefið og hef skoðanir á hlutunum. Árið 2014 fæ ég enn eitt viðurkenningaskjalið en í þetta sinn sem “Bæjarlistamaður Kópavogs”. Enn og aftur framfarir frá löngu horfnum fimleikaferli mínum.

Árið er 2015 og ég ligg á ströndinni á Balí. Eftir að hafa frelsast á Indlandi, kúkað í mig í Nepal,  flogið í loftbelg í Laos og sleikt malbik í mótorhjólalsysi í Víetnam þá lít ég yfir farinn veg, afskaplega, innilega þakklát fyrir að vera á lífi! Jafnvel þó ferðin hafi verið fjarri því að vera átakalaus (en á 4 mánuðum tókst mér að missa af þremur flugum, fá 300 bit og bráðaofnæmi í kjölfarið, rétt komið mér frá Nepal áður en jarðskjálftinn skall á, nælt mér í fjórar matareitranir og heimsótt 13 spítala víðs vegar um Asíu) að þá nákvæmlega á þessum tímapunkti sé ég allar þessar hamfarir mínar í fullkomnu samhengi við það sem ég þurfti að læra af þessu ævintýri mínu. Mér býðst að byrja í rokkbandi og auðvitað segi ég já. Gamla góða mantran sér til þess. Ég kem heim og árið 2016 koma mínar fyrstu tvær plötur út, önnur með Reykjavíkurdætrum og hin með Kroniku. Ég er samt enn að berjast við þá staðreynd að líta á sjálfa mig sem tónlistarkonu. Í staðinn humma ég það fram af mér þegar fjallað er um mig sem slíka og þrátt fyrir fjölda funda, heilara, meðferða og sálfræðitíma að þá á sjálfstraustið enn örlítið í land til þess að standa og halda með mér 100%. Á sama tíma er ég hinsvegar orðin afskaplega góð í að halda námskeið fyrir aðra sem glíma við sömu vandamál þar sem áherslan er lögð á sjálfstraust í listsköpun. En verandi mjög meðvituð um orðatiltækið “Practise what you preach” að þá sparka ég sjálfa mig í rassinn og held ótrauð áfram að leita innblásturs og leiðum til að stækka og vaxa.

Ég er 29 ára. Ég á afmæli. Ég er stödd í Guatemala og er í þann mund að fara að halda mína fyrstu súkkulaði seremóníu. Ég hugsa til þess þegar ég smakkaði svona kakó í fyrsta skipti, akkurat ári áður, á 28 ára afmælisdaginn minn. Mér fannst súkkulaðið rammt og vont og mér fannst ég ekki alveg “nógu andleg” umkringd öllum þeim “jógagúrú” konum sem sátu þarna í hringnum. En með mér voru mamma mín og mínar bestu vinkonur og ég var tilbúin fyrir eitthvað nýtt svo ég hætti að spá í því, lokaði augunum og ákvað að treysta ferðalaginu. Eitthvað mjög magnað átti sér stað þetta kvöld. Ég grét, ég hló, ég dansaði, ég deildi upplifun minni og ég fann fyrir samstöðu með öllum þeim konum sem eyddu þessari stund með mér. Ég var staðráðin í að prófa þetta aftur en mig óraði ekki fyrir því að ári síðar myndi ég útskrifast úr námi í Guatemala að nafni “Yoga of sound and chocolate”. En einmitt þarna hafði ég fundið eitthvað sem sameinaði nánast allt sem ég elskaði mest; Tónlist, jóga og SÚKKULAÐI! Næstu mánuðir fara í að halda seremóníur heima á Íslandi, ég býð fólki bæði í einkatíma heim í stofu og held svo stærri viðburði með Láru sem kemur eins og sólargeisli inn í líf mitt á hárréttu augnabliki. Ég finn sjálfa mig sterka, einu skref nær tilgangi mínum og spennta fyrir komandi ævintýrum. Ég átta mig á mikilvægi þess að leika sér, taka sjálfa mig og lífið ekki of alvarlega og eignast nýja uppáhalds möntru: “The best way to get enlightened is to lighten up!”


Það er 29. janúar og árið er 2018. Ég er næstum því búin að ferðast 30 sinnum hringinn í kringum sólina. Ég lít til baka. Ég sé fallega æsku, ég sé glatt og forvitið barn sem fékk heilan helling af ást, umhyggju og stuðningi frá öllum í kringum sig. Ég sé holur, polla og veggi sem ég þurfti að reka mig á. Ég skoða það sem hefur veitt mér innblástur, það sem hefur þroskað mig, það sem hefur ögrað mér og það sem hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Ég á mömmu sem er besta vinkona mín og pabba sem ég elska út af lífinu. Pabbi minn er ennþá veikur en í dag hef ég lært að hver og einn ber ábyrgð á sínu eigin lífi. Ég stunda enn fundi og nú er ég fullorðna manneskjan sem sit á fundinum þegar nýjir unglingar koma inn með hjartað í buxunum. Ég get deilt sögu minni og verið fullviss um að það sé fullt í boði fyrir hvern þann sem vill vinna í sínum málum eða líða ögn betur í eigin skinni. Ég leita mér sjálf hjálpar ef eitthvað bjátar á, því fyrir mér er jafn sjálfsagt að leita til fagaðila eins og að leita til læknis við flensu. Ég á heilan helling af antík búningum og grímum sem ég hef komið vandlega fyrir í gömlum kistli því ég þarf ekki lengur á þeim að halda en ég er þakklát fyrir þau hlutverk sem þau þjónuðu á sínum tíma. Ég held með fólkinu mínu og ég held með sjálfri mér. Ég hef trú á því að ég geti mætt hverju því sem á vegi mínum verður með styrk og útsjónarsemi. Ég græt enn, sem enn mis-dramatísk ljóð og spyr enn stórra spurninga. Ég fæ enn fitukomplexa, dett í drullupolla og held af og til að ég geti bjargað heiminum. En það mikilmennskubrjálæði varir ávallt í styttri og styttri tíma í senn…

Síðast í gær stóð ég úti í garðinum mínum og horfði á vaxandi tunglið og stjörnubjartan himininn. Í huga mér vöknuðu nákvæmlega sömu spurningar og hjá þeirri fimm ára sem lá á bílþakinu með pabba sínum. Ég fyllist enn vanmáttar, ég finn enn fyrir smæð minni en munurinn er sá að í dag er ég fegin að skilja ekki allt og vita ekki allt. Eins og heimspekingurinn sagði forðum “Það eina sem ég veit er að ég veit ekki neitt.” Ég er ekki frá því að ég sé sammála Sókrates í því máli.

Þegar ég verð stór vil ég vera hugrökk, gömul kona með fullt af sögum til að segja. Sögum af skandölum og sigrum, litlum og stórum. Sögum sem inspírera aðra til að láta vaða. Sögur sem hvetja aðra til að láta drauma sýna rætast. Margir af mínum draumum hafa nú þegar ræst en ég býð ennþá spennt eftir því að vera boðið til tunglsins… En þangað til held ég leit minni áfram að því sem fyllir mig andagift hverju sinni og geri mitt besta til að deila því með heiminum!

Elsku vinir… ég hvet ykkur til að elska meira, dreyma stærra, deila tárunum ykkar og óska ykkur ef þið sjáið stjörnuhrap. Það virkar. Pabbi minn segir það.

ást&virðing
Tilfinna